top of page
Screenshot 2020-04-27 at 10.03.01.png

Fjallaskíðaferð á Hvannadalshnúk
Hæsta tind Íslands

Lengd ferðar:

10-12 Tímar

 

Erfiðleikastig:

Krefjandi og krefst góðs úthalds

 

Lengd ferðar: 

23 km

(11.5 hvor leið)

2000 m hækkun

Tímabil:

Best að fara frá miðjum mars fram í byrjun maí

Brottfarartími:

Förum yfirleitt af stað kl. 5 eða 6 um morgun.

Fjöldi Þáttakenda:

2-6

Einkaferð

lágmarksaldur 17 ár
2 viðskiptavinir 90.000 á mann

3 viðskiptavinir 65.000 á mann

4 viðskiptavinir 60.000 á mann

5 viðskiptavinir 55.000 á mann

6 viðskiptavinir 50.000 á mann

 

Verð miðast við að viðskiptavinir komi með sinn eigin fjallaskíðabúnað

Verðlisti

Ferð á Hvannadalshnúk er krefjandi og löng ferð, venjulega erum við 7-8 klst að komast upp á topp, ef aðstæður eru góðar, og 2- 3 klst að skíða niður aftur.

Við blöndum ekki ókunnu fólki saman í okkar ferðum á Hvannadalshnúk svo að ef þú ert í formi til að toppa þá er þetta einkaferð og þú/þið verðið ekki upp á aðra komin með árangur.

Snemma vors getum við oftast komist á skíðin fljótlega eftir að við leggjum af stað frá bíl við Sandfell, en þegar komið er fram í maí getur verið að aðstæður breytist. Ef of langt er að bera skíðin og ef veðuraðstæður leyfa þá höfum við stundum breytt yfir í Hnappaleið í maí.

En Sandfellsleiðin er besta fjallaskíðaleiðin þegar hægt er að skíða 2000 metra lækkun, langleiðina niður að bíl :-)

 

Leiðsögumaður verður Einar Rúnar Sigurðsson, sem verður að teljast reyndasti fjallaleiðsögumaður landsins í ferðum á Hvannadalshnúk, þar sem hann er nú búinn að toppa Hnúkinn 327 sinnum (síðast í apríl 2024).

Einar hefur klárað fjallaleiðsögupróf AIMG Fjalla 2 og er búinn að taka AIMG Skíðaleiðsögn 1, auk AIMG Jökla 1,2 og 3. Sjá http://aimg.is/member/?id=33

 

 

 

Útbúnaðarlisti fyrir fjallaskíðaferð á Hvannadalshnúk

 

Þú kemur með:

 

  • Góð og hlý fjallamennskuföt

  • Bakpoka sem hefur pláss og ólar fyrir fjallabúnað

  • Sólgleraugu og sólarvörn

  • Nesti og nóg af vökva

  • Fjallaskíðabúnað (mæli eindregið með að hafa með skíðabrodda)

  • Klifurbelti með karabínu, broddar, ísöxi (eða öxi á skíðastaf)

  • Snjóflóðaýlir, skófla og stöng

 

Við hjá Öræfaferðum eigum nóg af mannbroddum, klifurbeltum og ísöxum ef þarf, en við höfum ekki auka fjallaskíðabúnað til láns og í mesta lagi 2 aukasett af snjóflóðabúnaði. En Fjallakofinn.is er að leigja út fjallaskíðabúnað ef þarf. Sjá https://d5hu1uk9q8r1p.cloudfront.net/fjallakofinn.is/skrar/skjol/leiga.pdf

 

Varðandi fatnað:

 

Til að líða vel í svona erfiðri ferð er lífsnauðsynlegt að klæðast í efni sem þola svita og púl og halda þér heitum þegar við stoppum. Betra að koma í mörgum lögum frekar en einum mjög heitum galla eða þungri fóðrari úlpu. Endilega vera með vara hlýja dúnúlpu eða lopapeysu eða hlýja flíspeysu eða sambærilegt með í vatnsheldum poka. Eitthvað sem þú ferð ekki í nema í verstu aðstæðum.

BOLUR: ullar eða gerfiefnisbolur næst þér, svo þykkari flíspeysa eða ullarpeysa, og svo softshell jakki og auk þess vind/vatnsheldur jakki með góðri hettu. (hlýtt aukalag með í vatnsheldum poka, dúnúlpa eða dúnvesti, gerfidúnjakki eða lopapeysa eða þ.h.)

 

LEGGIR: nærföt ekki úr bómul, softshell buxur, og vind/vatnsheldar buxur.

 

FÆTUR: Skíðasokkar (alls ekki bómull) (mæli með þunnu og þykku lagi, ef þú ert gjarn á hælsæri. Það er að segja ef þunna lagið er líka hátt eins og skíðasokkar. Ekki vera í lágum sokkum, þá er hætt við að þú farir að meiðast við brúnina á sokkinum á leggnum.

Mæli með að hafa hælsærisplástur með, og jafnvel foot warmers til öryggis.

 

HENDUR: Þynnri hanskar og hlýrri hanskar og þá endilega hafa handwarmers með. Eða þá koma í þynnri hönskum, og hafa hlýja vatnshelda belgvettlinga með til vara. Ef þú ert bara fingravettlinga þá endilega hafðu með hand warmers til öryggis. Það er stundum alveg sama hve þykkir fingravettlingar eru, puttarnir verða of kaldir án hjálpar handwarmers.

 

HÖFUÐ: Hlý húfa, og góð hetta á jakka. Hjálmur er þitt val. Ég aðhyllist léttan hjálm sem hægt er að vera með á sér bæði á uppleiðinni og niðurleiðinni, en sumir eru vanir að bera hefðbuninn skíðahjálm upp og nota hann bara til að skíða niður. Sumir nota ekki hjálm í þessari ferð, og eins og ég segi, það má vera þitt val.

 

ANDLIT: Best að vera með neoprene skíðagrímu, en lambúshetta getur dugað ef hægt er að setja yfir nefið ef þarf. Endilega vera líka með skíðagleraugu, getur munað miklu til að ganga á móti köldum vindi.

Varðandi Bakpoka:

Þarf að vera nógu stór til að taka ytri lög á heitum degi. En einnig munum við þurfa að koma fyrir broddum, nesti og drykk, ísöxi og jafnvel skíðunum sjálfum í byrjun ferðar, eða í vondum aðstæðum á fjallinu. Venjulega er lágmark 40 lítra bakpoki nauðsynlegur og alla vega vera með gott ólakerfi ef pokinn er minni en það.

Matur og drykkur:

Mjög mikilvægt er að vera með nógan drykk. Meðal maður þarf um 2 lítra með sér, en sumir hafa þurft 3 lítra. En þetta fer eftir formi hvers og eins. Á köldum degi þarf maður oft að passa að muna drekka, jafnvel þó maður sé ekki svo þyrstur, til að forðast krampa. Á heitum degi er aldrei nóg af drykk með, en auðvitað eru takmörk fyrir hvað maður vill hafa bakpokann þungann svo 2-3 lítrar eru millivegur.

Gott að hafa hluta af drykknum sem heitt te eða kakó. Kalda drykki er betra að hafa volga (ekki geyma í ískáp nóttina áður, jafnvel geyma orkudrykkinn við ofninn í hótel herberginu til að hann sé ylvolgur um morguninn) og ef þú tekur kranavatn, endilega láttu renna eins heitt og þú færð úr krananum í flöskuna. Ískalt vatn er oft orðið botnfrosið þegar toppi er náð á köldum degi.

Forðist að taka of mikið af brauði. Gott að borða samlokur í fyrrihluta ferðar áður en orðið er of kalt því það getur verið erfitt að koma í sig brauði í miklu frosti. Ég er oft með 2 samlokur sem ég borða á uppleiðinni eða þá eina samloku, og svo heitan rétt í matarhitabrúsa, en svo nóg af orkustöngum, og hnetum og súkkulaði mixi og þess háttar til að koma mér heim. Heitur réttur í matarhitabrúsa er þess virði að bera nokkur aukagrömm sem felast í ílátinu, og það er alltaf auðveldara að borða heitan rétt í kulda en frosna samloku.

Ekki hika við að ræða málin við Einar leiðsögumann daginn áður, ef eitthvað vantar eða hefur gleymst. Beinn sími hjá honum er 7886688.

bottom of page