top of page

Kynning á fjölskyldunni okkar og fyrirtækinu.

Um okkur

Öræfaferðir- Frá fjöru til fjalla er lítið ferðaþjónustufyrirtæki sem rekið er af fjölskyldunni á Hofsnesi í Öræfum. Eigendur fyrirtækisins eru Einar Rúnar Sigurðsson (fæddur og uppalinn í Öræfum) og eiginkona hans Matthildur Unnur Þorsteinsdóttir.

 

Af hverju að velja Öræfaferðir?

Eitt af einkennum Öræfaferða er að í fyrirtækinu starfar eingöngu fjölskyldan sjálf ásamt frændfólki og nágrönnum úr sveitinni svo að sjálfsögðu tölum við öll íslensku. Við erum virkilega stolt af héraðinu okkar og teljum það vera forréttindi að fá að kynna svæðið fyrir gestum okkar. Einar er eini starfandi fjallaleiðsögumaðurinn hjá Öræfaferðum frá hausti fram á vor, en á sumrin hjálpast fjölskyldan og nágrannar þeirra við að fara Ingólfshöfðaferðirnar.

 

Hvernig þetta byrjaði allt?

Árið 1990 fór faðir Einars, ferðafrumkvöðullinn Sigurður Bjarnason, sína fyrstu formlegu ferð í friðlandið Ingólfshöfða með ferðamenn standandi á heykerru sem hann dró aftan í dráttarvélinni sinni.

Árið 1891 mætti þó segja að forsaga fyrirtækisins hafi byrjað. Þá var Páll Jónsson bóndi í Svínafelli í Öræfum fyrstur manna til að leiðsegja göngu á Hvannadalshnúk. Páll var afi Sigurðar og því má með sanni segja að útivist og leiðsögn sé fjölskyldunni í blóð borin.

Vorið 1994 fetaði Einar í fótspor langafa síns og hóf að bjóða leiðsögn á Hvannadalshnúk, og skriðjökla Öræfajökuls og nær því að teljast elsti fjallaleiðsögumaður landsins í starfsárum. Einar á heimsmet í göngum á Hvannadalshnúk, en hann hefur nú staðið í yfir 300 skipti á hæsta tindi Íslands. Einar var einnig fyrstur til að bjóða daglegar íshellaferðir fyrir ferðamenn á Íslandi, en hann byrjaði að fara í íshella með viðskiptavini árið 1996 og lengi vel voru Öræfaferðir eina fyrirtækið sem bauð uppá íshellaferðir í Vatnajökli.

Árið 2015 Stofnaði Aron Franklín, (sonur Matthildar) og Helen María unnusta hans, dóttur fyrirtækið Local Guide of Vatnajökull. Sjá Hér: LocalGuide

Öræfaferðir keyptu fyrir nokkrum árum niðurnýtt verslunarhúsnæði á Fagurhólsmýri og var þessi fyrrum kaupfélagsverslun sem var hjarta samfélagsins í áratugi endurvakin sem notalegt kaffihús undir nafninu Kaffi Vatnajökull. Við seldum ungum nágrönnum okkar á Fagurhólsmýri kaffihúsið vorið 2022 og mælum eindregið með að kíkja þar inn þegar þið eigið leið um Öræfasveitina.

 

Hvaða þjónusta er í boði?

Á sumrin einbeitum við okkur að Ingólfshöfðaferðinni á meðan lundinn er í Höfðanum. Til að komast í Höfðann notum við dráttavél og heykerru og er aksturinn yfir vötn og sanda ævintýri í sjálfu sér. Ferðin í friðlandið Ingólfshöfða er sögu og fuglaskoðunarferð og mun leiðsögumaðurinn segja mismunandi sögur um svæðið og náttúrufarið og lífið í Öræfum. Saga Ingólfshöfða er þjóðkunn en hann er nefndur eftir fyrsta landnámsmanninum Ingólfi Arnarsyni sem hafði vetursetu í Ingólfshöfða árið 874. Mikið fuglalíf er í friðlandinu, og þar ber helst að nefna hinn vinalega lunda og ekki svo vinalega skúm.

 

Öræfaferðir bjóða einnig ýmsa afþreyingu við rætur Vatnajökuls, aðallega fyrir einstaklinga og litla hópa en við getum einnig farið með 100 manna ættarmót í Ingólfshöfðaferð ef því er að skipta. Í áratugi hafa Öræfaferðir einnig boðið uppá þjónustu við skólaferðalög og ferð í Ingólfshöfða hefur alltaf hitt í mark hvort sem um er að ræða barnaskólakrakka eða 10. bekkinga. Sérstakar ljósmyndaferðir í Ingólfshöfða eru í boði kl. 5:55 að morngni um há sumarið.

 

Frá október til apríl eru ísklifurferðir í boði og fjallaskíðaferðir þegar aðstæður leyfa. Þegar sól fer að hækka á vorin einbeitir Einar sér að því að leiðsegja fjallaskíðafólki á Hvannadalshnúk hæsta tind Íslands og aðra fallega tinda suðausturlands þar til lundinn kemur aftur í Ingólfshöfða.

Einar Sigurðsson (fæddur 1968) með syni sína , Ísak Einarsson (fæddur 2002 and Matthías Einarsson (fæddur 2003) á Svínafellsjökli 2005.

Jólamáltíð á Hofsnesi 2007. Matta, Ísak Einarsson, Sigurður Bjarnason, Matthías Einarsson og Guðrún Bjarnadóttir, föðursystir Einars.

bottom of page